Alfreð Finnbogason kom mikið við sögu þegar Augsburg gerði 3-3 jafntefli við Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni í dag. Augsburg komst í 3-0 en glutraði forystunni niður á klaufalegan hátt í seinni hálfleik.
Alfreð skoraði í síðasta heimaleik Augsburg, 2-2 jafntefli við Borussia Mönchengladbach, og hann átti stórgóðan leik í dag.
Suður-Kóreumaðurinn Ja-Cheol Koo skoraði öll þrjú mörk Augsburg í dag en Alfreð átti stóran þátt í tveimur þeirra.
Koo kom Augsburg yfir strax á 5. mínútu og bætti svo öðru marki við rétt fyrir hálfleik þegar hann fylgdi eftir skoti Alfreðs sem hafnaði í stönginni.
Íslenski landsliðsframherjinn var ekki hættur því á 57. mínútu lagði hann boltann fyrir Koo sem fullkomnaði þrennuna og sigurinn virtist í höfn.
Leverkusen-menn voru á öðru máli og Karim Bellarabi minnkaði muninn í 3-1 á 60. mínútu. Tuttugu mínútum síðar skoraði Paul Verhaegh sjálfsmark og hleypti þar með Leverkusen inn í leikinn fyrir alvöru.
Það var svo Hakan Calhanoglu sem skoraði jöfnunarmark Leverkusen úr vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að Jeffrey Gouweleeuw handlék boltann innan vítateigs.
Alfreð og félagar eru í 14. sæti deildarinnar með 26 stig, þremur stigum frá fallsæti.
Úrslit dagsins:
Augsburg 3-3 Leverkusen
Stuttgart 5-1 Hoffenheim
Werder Bremen 4-1 Hannover
Wolfsburg 2-1 Mönchengladbach
Frankfurt 1-1 Ingolstadt
Köln 1-3 Schalke
