Haukarkonur ætla að klára tímabilið án bandarísks leikmanns en Chelsie Alexa Schweers hefur spilað sinn síðasta leik með Hafnarfjarðarliðinu í vetur.
Kjartan Atli Kjartansson sagði frá þessu í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport í kvöld en Haukaliðið hefur ekki orðið betra eftir komu Schweers.
Chelsie Schweers var líka látin fara frá Stjörnunni um áramótin en hún var þá og er enn stigahæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna í körfubolta.
Chelsie Alexa Schweers hefur skorað 27,1 stig í 16 leikjum í Domino´s deildinni. Hún var með 31,0 stig og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í 9 leikjum með Stjörbunni og var búin að skora 22,0 stig og gefa 2,3 stoðsendingar að meðaltali í sjö deildarleikjum með Haukum.
Síðasti leikur Chelsie Alexa Schweers með Haukaliðinu var á móti sínum gömlu félögum í Stjörnunni þar sem hún skoraði sjö þrista og var stigahæst í Haukaliðinu með 25 stig.
Fyrsti leikur Haukaliðsins án Chelsie Alexa Schweers verður toppslagurinn á móti Snæfelli á Ásvöllum á þriðjudagskvöldið.
Þetta er önnur stóra breytingin sem Haukar gera í aðdraganda leiksins við Snæfells því fyrr í dag var Andri Þór Kristinsson látinn fara sem einn af þremur þjálfurum liðsins og Henning Henningsson kom inn í staðinn sem aðstoðarþjálfari Ingvars Þórs Guðjónssonar.
Helena Sverrisdóttir verður áfram spilandi þjálfari Haukaliðsins en stórt hlutverk hennar stækkar líklega enn meira nú þegar Chelsie Schweers spilar ekki lengur með liðinu.
Haukar vonast líka til að endurheimta gömlu góðu Pálínu Gunnlaugsdóttur til baka en Pálína skoraði aðeins 5,7 stig að meðaltali í sjö deildarleikjum Chelsie Schweers með liðinu. Pálína skoraði 16,1 stig að meðaltali í leik fyrir áramót og var valin í úrvalslið fyrri umferðarinnar.
Haukar láta Chelsie Schweers fara | Rekin í annað skiptið á tímabilinu

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Keflavík 89-69 | Haukar upp að hlið Snæfells
Haukar unnu auðveldan sigur á Keflvíkingum, 89-69, í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld en leikurinn fór fram í DB Schenker-höllinni í Hafnarfirði. Leikurinn var aldrei spennandi og ljóst frá byrjun í hvað stefndi.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Haukar 66-86 | Auðvelt hjá Haukum
Haukar unnu auðveldan sigur á Stjörnunni, 66-86, í Dominos-deilda kvenna í körfubolta í kvöld.

Helena með þrennu að meðaltali á móti Keflavík
Haukar og Keflavík mætast í kvöld í Domino´s deild kvenna í körfubolta og verður leikur liðanna í beinni á Stöð 2 Sport 3.

Ráku stigahæsta leikmann deildarinnar
Chelsie Alexa Schweers spilar ekki fleiri leiki með Stjörnunni í Domino´s deild kvenna í körfubolta á þessu tímabili því Stjarnan hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við leikmanninn.