Körfubolti

Sigurganga strákanna hans Arnars endaði á móti toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Axel Kárason.
Landsliðsmaðurinn Axel Kárason. Vísir/Vilhelm
Fjögurra leikja sigurganga Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta endaði í kvöld þegar liðið tapaði með fimm stigum á útivelli á móti toppliði deildarinnar.

Lærisveinar Arnars Guðjónssonar í Svendborg Rabbits urðu að sætta sig við 84-79 tap fyrir Horsens IC eftir að hafa staðið vel í toppliðinu fram eftir leik. Horsens vann þarna tíunda deildarleik sinn í röð.

Íslenski landsliðsmaðurinn Axel Kárason var með 13 stig, 7 fráköst, 2 varin skot og eina stoðsendingu í leiknum. Axel spilaði í 36 mínútur og hitti úr 5 af 9 skotum sínum utan af velli.  

Svendborg Rabbits var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 25-21, en Axel var með 3 stig og 1 stoðsendingu í leikhlutanum.

Horsens-liðið vann annan leikhlutann 20-16 og því var jafnt í hálfleik, 41-41. Axel var með fimm stig og tvö fráköst í fyrri hálfleiknum.

Leikmenn Horsens gáfu í byrjun þriðja leikhlutans og náðu átta stiga forystu en voru síðan með sex stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 60-54.

Horsens var áfram skrefinu á undan í fjórða leikhlutanum og landaði enn einum sigrinum.

Horsens IC hefur unnið 25 af 26 leikjum sínum í dönsku deildinni á tímabilinu. Svendborg Rabbits hefur unnið 15 af 26 leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×