Samtals er kosið í tólf ríkjum, en báðir flokkar halda forkosningar í Minnesota, Massachusetts, Vermont, Virginíu, Tennessee, Georgíu, Alabama, Arkansas, Oklahoma og Texas. Við viðbótar fara forkosningar Repúblikana í Alaska og Demókrata í Colorado fram í dag.
Líklegt þykir að línur komi til með að skýrast varðandi hverjir verða frambjóðendur flokkanna að loknum þessum Ofurþriðjudegi svokallaða.
Eftir að forkosningar flokkanna hafa farið fram í fjórum ríkjum leiðir Donald Trump Repúblikanamegin, en Hillary Clinton hjá Demókrötum.
Kjörstaðir voru opnaðir í Virginíu klukkan sex að staðartíma í morgun, eða klukkan ellefu að íslenskum tíma.
Í frétt BBC segir að Repúblikaninn Ted Cruz megi ekki við því að tapa í heimaríki sínu, Texas, ætli hann sér að hljóta tilnefningu síns flokks.
Sömuleiðis er talið að ef Trump verði undir í Massachusetts, þar sem „hófsamir“ kjósendur eru í meirihluta, kunni það að draga nokkuð kraftinn úr kosningabaráttu auðjöfursins sem hefur haft mikinn vind í seglunum að undanförnu.
Clinton vonast til að bæta við forskot sitt á Bernie Sanders, en hún vann mikinn sigur í Suður-Karólínu í síðustu viku.
Bandaríkjamenn munu kjósa sér nýjan forseta þriðjudaginn 8. nóvember næstkomandi og tekur nýr forseti við embætti þann 20. janúar 2017.