Það mun áfram hvessa síðdegis og má búast við ofsaveðri á Norður- og Vesturlandi í kvöld. Veðrið gengur ekki niður fyrr en í fyrramálið.
Á gagnvirku vindakorti af heiminum er hægt að fylgjast með því hvernig veðrið þróast í dag.
Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega. Einnig er brýnt að hreinsa vel frá niðurföllum og útidyrum á jarðhæðum og í kjöllurum.
Vegagerðin bendir vegfarendum á að eftir klukkan fimm eða sex í kvöld verður hættulega hvasst af suðri upp á öll ferðalög að gera, allt frá Hvalfirði vestur úr og norður í Eyjafjörð.
Hálka er á vegum víða um land og Fróðárheiði á Vesturlandi er ennþá lokuð. Nánar á vef Vegagerðarinnar.