Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðu ríkisstjórnarinnar verða rædda á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag og hvort styðja eigi áfram Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Nú bíði hann hinsvegar eftir því að forsætisráðherra svar því sem kom fram í þætti Kastljóssins í gær. Hann sagði það hinsvegar þannig að hann treysti Sigmundi sem forsætisráðherra og það hefði ekki breyst.
„Ég tala auðvitað ekki fyrir hönd flokksins en þetta verður rætt á fundi á morgun. Við ræðum stöðu ríkisstjórnarinnar í hverri viku og á því verður engin breyting á þingflokksfundinum,“ sagði Brynjar. „Þetta lítur hinsvegar verr út fyrir Sigmund eftir Kastljósþáttinn og þetta er pólitískt erfitt fyrir forsætisráðherrann. Við munum þurfa að ræða það hvaða áhrif þetta muni hafa á stjórnarsamstarfið.“
Fyrirhuguðum fundum á nefndarsviði Alþingis í fyrramálið hefur verið frestað að ósk stjórnarandstöðunnar. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Segir hann stjórnarandstöðuna hafa kallað eftir frestun til að geta fengið tíma til að funda innan þingflokkanna.
Alþingi kemur aftur saman á morgun eftir páskafrí. Til stóð að velferðarnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og efnahags- og viðskiptanefnd myndu funda. Nú er ljóst að þeir fundir munu fara fram síðar.
„Lítur verr út eftir Kastljósþáttinn“
Sveinn Arnarsson skrifar
