Körfubolti

Bara einn deildarmeistari hefur komið til baka eftir tap í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir og Auður Ólafsdóttir lyfta deildarmeistarattilinum.
Pálína Gunnlaugsdóttir og Auður Ólafsdóttir lyfta deildarmeistarattilinum. Vísir/Anton
Deildarmeistarar Hauka í Domino´s deild kvenna í körfubolta byrjuðu úrslitakeppnina á tapi á heimavelli á móti Grindavík á miðvikudagskvöldið. Það hefur ekki gerst oft að deildarmeistararnir misstígi sig í fyrsta leik.

Haukakonur heimsækja Grindavík í kvöld í beinni á Vísi og Stöð 2 Sport 3 og reyna að jafna einvígið. Liðin þurfa þrjá sigra til að komast í lokaúrslitin.

Þetta er aðeins í fjórða skiptið í sögu úrslitakeppni kvenna þar sem deildarmeistararnir tapa fyrsta leik og aðeins eitt af þessum þremur liðum hefur komið til baka og komist í lokaúrslitin.

Deildarmeistarar Keflavíkur árin 1997 og 2012 töpuðu fyrsta leik á heimavelli í undanúrslitunum og duttu bæði úr leik án þess að vinna leik í úrslitakeppninni.

Einu deildarmeistararnir sem hafa lent 1-0 undir í undanúrslitum og unnið einvígið er Keflavíkurliðið frá 2013.

Keflavíkurkonur lentu tvisvar undir í einvíginu á móti Val, 1-0 og 2-1, en komu til baka og tryggðu sér sæti í lokaúrslitunum með sigri í oddaleik.

Keflavíkurkonur fóru síðan alla leið og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 3-1 sigri á KR í lokaúrslitunum.

Einn leikmaður Haukaliðsins í dag þekkir það betur en aðrir að tapa fyrsta leik sem deildarmeistari.

Pálína Gunnlaugsdóttir lék með Keflavík bæði árið 2012 þegar liðið datt út 3-0 og árið 2013 þegar Keflavíkurliðið kom til baka og fór síðan alla leið og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Haukakonur horfa því örugglega til Pálínu Gunnlaugsdóttur í undirbúningi sínum fyrir leikinn mikilvæga í Grindavík í kvöld en Pálína þekkir líka Röstina í Grindavík vel því þar spilaði hún tvö síðustu tímabil á undan þessu.



Deildarmeistarar kvenna sem hafa tapað fyrsta leik

Keflavík 1997

Undanúrslit:

Keflavík 0-2 Grindavík {43-57, 55-61}

Keflavík 2012

Undanúrslit:

Keflavík 0-3 Haukar {54-63, 68-73, 52-75}

Keflavík 2013

Undanúrslit:

Keflavík 3-2 Valur {54-64, 82-74, 68-75, 66-59, 78-70}

Haukar 2016

Undanúrslit:

Haukar 0-1 Grindavík {58-61, ...}




Fleiri fréttir

Sjá meira


×