Innlent

Flugvél Icelandair heil eftir að hafa verið lostin eldingu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér má sjá augnablikið þegar eldingin lenti í vélinni.
Hér má sjá augnablikið þegar eldingin lenti í vélinni. Vísir/Skjáskot
„Það var greinilega mjög þungt yfir þarna, mikið um eldingar og jafnframt flugvélar að fljúga. Mér skilst að það hafi farið eldingar í að minnsta kosti þrjár flugvélar,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en flugvél Icelandair sem var að koma inn til lendingar á Heathrow-flugvöll í London í gærkvöldi varð lostin eldingu. Atvikið gerðist um hálfníu leytið í gær.

„Þetta er bara þannig að eldingin kemur í vélina og fer út aftur. Vélin er gerð þannig að hún geti tekið við eldingum án hættu fyrir farþega og svo eftir að henni er lent fer hún í skoðun. Í þessu tilviki þá reyndist hún í fullkomnu lagi og hún hélt áfram til Íslands.“

Guðjón segir þetta koma fyrir annað slagið þó að þetta sé afar sjaldgæft hér á landi. Farþegar lýsa slíkri upplifun vanalega með sama hætti: það kemur hár hvellur og ljós glampi. En að öðru leyti ætti það ekki að valda óþægindum.

Myndband af þessu má sjá hér að neðan.

The Evening Standard ræddi við farþega vélarinnar sem sagðist hafa séð greinilega að flogið væri inn í storm. „Ég náði ekki mynd af því þegar eldinguna laust í vélina en það gerðist skyndilega, það var hávaði, mjög mikil skyndileg birta og alveg skýrt hvað þarna var á ferðinni. Ég held að öllum farþegum hafi brugðið of mikið til þess að bregðast við á nóinu en þegar við lentum voru allir að tala um þetta,“ sagði farþeginn Catherine Mayer. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×