Um er að ræða sex karlmenn og tvær konur. Þar af er einn fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra, en sá er talinn hafa í starfi sínu aðstoðað hina grunuðu við fjársvikin og sagður hafa gegnt lykilhlutverki í málinu.
Þóttust starfa í byggingariðnaði
Málið kom upp í september árið 2010. Svikin eru sögð hafa farið þannig fram að fólkið setti á fót sýndarfyrirtæki í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr skattkerfinu.
Fyrirtækin höfðu enga raunverulega starfsemi en fengu í krafti falsaðra gagna og aðgangs að fyrrnefndum starfsmanni Ríkisskattstjóra stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist.
Fyrirtæki gátu þá fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti á meðan uppbyggingu stóð. Fólkinu tókst þannig að svíkja rúmlega 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu.

Rannsókn lögreglu var viðamikil og var húsleit gerð víða á meðan henni stóð. Að minnsta kosti níu voru handteknir í tengslum við málið.
Grunaður höfuðpaur er Steingrímur Þór Ólafsson en hann hélt af landi brott til Suður-Ameríku nokkrum dögum áður en upp komst um svikin og handtökurnar fóru fram. Alþjóðadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra lýsti eftir Steingrími að fenginni ákvörðun dómsmálaráðuneytisins og að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Steingrímur var eftirlýstur af Interpol vegna gruns um eiturlyfjasmygl, skjalafals, peningaþvætti og skattsvik. Hann var svo handtekinn á Santiagó Marínó flugvelli á eyjunni Margarita, þegar hann ætlaði að fara þaðan til Frankfurt í Þýskalandi, að eigin sögn á leið sinni til Íslands. Hann hafði þá dvalið í Venesúela í fimm daga. Fjölmiðlar þar í landi sögðu frá handtöku Steingríms, birtu nafn hans og myndir af honum.

Einn þeirra sem ákærður er, rúmlega fertugur karlmaður, er með einn dóm á bakinu. Hann var árið 2010 dæmdur í sex mánuði í fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Honum var gefið að sök að hafa í sölu- og dreifingarskyni ræktað sextán kannabisplöntur og fyrir að hafa sett upp ræktunarstöð fyrir allt að sex hundruð plöntur á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd.
Þá er fyrrverandi par jafnframt grunað um að aðild að málinu, ásamt einkaþjálfara og sölumanni, svo fátt eitt sé nefnt. Fólkið er á fertugs- og fimmtugsaldri.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu lauk rannsókn lögreglu árið 2013 og fór málið í kjölfarið á borð ríkissaksóknara. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í næsta mánuði.
Einn þyngsti dómur sem fallið hefur í skattsvikamáli hérlendis var í svokölluðu Vatnsberamáli þar sem skattsvikin námu 38 milljónum króna. Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, nú Þór Óliver, var þá dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og 20 milljóna króna sektargreiðslu. Dómurinn var sá þyngsti í málaflokknum á þeim tíma.
Sagt var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2010, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.