Fjallað er um málið á vef Reykjavík Media, The Guardian og Süddeutche Zeitung en umfjöllunin er byggð á skjölum sem uppljóstrarar létu í té í gagnalekum sem nefnast Swiss Leaks og Panama Papers.
Sjá einnig: Ólafur og Dorrit með tengsl við aflandsfélag
Samkvæmt upplýsingum sem koma frá breska bankanum HSBC átti Dorrit , ásamt fjölskyldu sinni, hlut í félaginu Jaywick Properties Inc sem skráð var á Bresku jómfrúareyjum, þekktu skattaskjóli. Þá kemur fram að hún hafi verið skáð fyrir hlut í Moussaieff Sharon Trust og benda gögnin einnig til að Dorrit hafi átt að erfa hluta aflandseigna foreldra sinna eftir að 86 ára gömul móðir hennar félli frá.
Samkvæmt gögnunum frá HSBC, sem eru frá árunum 2006 og 2007, kemur fram að fjölskylda Dorritar, hafi átt reikninga með allt að 80 milljón dollara innistæðum í HSBC bankanum í Sviss. Tekið er fram að svo virðist sem að Dorrit hafi sjálf ekki komið að reikningunum.
Sjá einnig: Ólafur Ragnar gæti þurft að opna bókhaldið til að forðast Panama-storminn
Þá er einnig tekið fram að ekkert í gögnunum bendi til lögbrota af hálfu Dorritar. Ekki er ólöglegt að eiga aflandsfélög eða svissneska bankareikninga.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur ítrekað neitað því, í kjölfar umfangsmikils gagnaleka frá Mossack Fonseca, að hann eða Dorrit eigi félög á aflandseyjum. Í nýlegu viðtali við CNN þvertók hann fyrir að hann eða fjölskylda hans tengdist slíkum félögum á nokkurn hátt.
Í svari Örnólfar Thorssonar forsetaritara við fyrirspurn fréttastofu 365 segir að Ólafur Ragnar hafi aldrei heyrt um þau atriði sem nefnd voru í fréttinni né hefði hann nú eða nokkru sinni haft vitneskju um fjárhagstengsl konu sinnar við foreldra sína eða aðra í fjölskyldunni. Þá hafði hann engar upplýsingar um áform foreldra hennar að þeim látnum. Hann vissi því ekkert um málið.