Liverpool getur þar ekki bara orðið Evrópumeistari í níunda sinn í sögunni heldur einnig tryggt sér sæti í Meistaradeildinni 2016-2017.
Gummi Ben lýsir úrslitaleiknum á Stöð 2 Sport en útsendingin hefst klukkan 18.30 og leikurinn svo klukkan 18.45.
Liverpool hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða og Meistaradeildina fimm sinnum og á möguleika á því að vinna UEFA-bikarinn í fjórða sinn. Ekkert annað enskt félag hefur náð viðlíka árangri í Evrópu.
Þetta verður fimmtándi leikur Liverpool í Evrópudeildinni á tímabilinu. Liðið spilaði sex leiki í riðlakeppninni (2 sigrar, 4 jafntefli) og sló síðan út Augsburg frá Þýskalandi, Manchester United frá Englandi, Borussia Dortmund frá Þýskalandi og Villarreal frá Spáni á leið sinni í úrslitaleikinn.
Liverpool hefur reyndar bara unnið sex af þessum fjórtán leikjum en aðeins einn hefur tapast og liðið hefur því komist alla leið í úrslitaleikinn á St. Jakob-Park leikvanginum í Basel í Sviss.
Liverpool gerði upp glæsilega sögu félagsins í Evrópu á rúmri mínútu í myndbandi á fésbókarsíðu sinni og má sjá það myndband hér fyrir neðan.