Umræðuefnið var Davíð gegn Golíat í knattspyrnunni en Árelía Eydís Guðmundsdóttir, doktor við HÍ, sem stýrði umræðunum vildi vita hvernig þessir menn taka tapi og byrjaði á Heimi.
"Maður lærir að jafna sig og hugsa um næsta leik en það er ekki gaman að tapa," sagði Heimir. "Lífið snýst um þetta og maður tapar oft. Lífið býður manni samt alltaf tækifæri til að hætta við hluti eða fresta þeim. Ef þú vilt verða sigurvegari þarftu að komast í gegnum svona hluti."
Heimir segist fara svo hátt upp eftir sigurleiki og vera svo svekktur þegar hann tapar að hann ræðir ekki við leikmenn fyrr en daginn eftir leik.

"Vanalega er ég mjög tapsár og ég lærði það fyrir mörgum árum að tala aldrei við leikmenn eftir tapleiki. Sama gildir um sigurleiki. Þá gat ég verið í svo mikilli sigurvímu. Ég sagði kannski við leikmann að hann hefði spilað frábærlega en svo var hann ekki í liðinu í næsta leik. Þá bar hann upp á mig það sem ég sagði eftir síðasta leik," sagði Heimir.
"Ég lærði þetta um sjálfan mig frekar snemma þannig ég tala aldrei við leikmenn eftir leik heldur daginn eftir."
Landsliðsþjálfarinn segir að það eina sem þjálfari getur í raun gert fyrir leik er að undirbúa liðið eins vel og hann getur.
"Það eina sem fær mann mögulega til að líða vel eða betur eftir tapleiki er ef þér finnst þú hafa undirbúið liðið vel. Það er svo lítið sem þjálfarar geta gert þegar leikurinn er farinn af stað. Sérstaklega ef spilað er á stórum völlum þar sem heyrist ekki einu sinni í manni ef maður er að reyna að gera einhverjar breytingar," sagði Heimir.
"Ef maður undirbýr sig og liðið vel og maður veit það þá líður manni betur þrátt fyrir að liðið tapi. Ef maður veit að liðið var ekki nógu vel undirbúið þá líður manni illa," sagði Heimir Hallgrímsson.