Fótbolti

Suárez: Mér datt ekki í hug að ég tæki við framherjastöðunni af Messi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez skoraði 40 mörk í 35 deildarleikjum.
Luis Suárez skoraði 40 mörk í 35 deildarleikjum. vísir/getty
Luis Suárez, framherji Barcelona, segist aldrei hafa búist við því að taka við framherjastöðu liðsins af Lionel Messi þegar hann gekk í raðir Katalóníuliðsins fyrir tveimur árum.

Suárez var algjörlega magnaður á leiktíðinni sem lýkur á sunnudaginn þegar Börsungar geta unnið tvennuna í enn eitt skiptið með sigri á Sevilla í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins.

Barcelona varð um síðustu helgi Spánarmeistari annað árið í röð en Suárez skoraði 40 mörk í 35 deildarleikjum og hirti gullskóinn af Cristiano Ronaldo sem þurfti að láta sér silfurskóinn nægja rétt eins og silfur í deildinni.

Messi, sem fimm sinnum hefur verið kosinn besti leikmaður heims, hefur þurft að víkja úr framherjastöðunni og spila aftur á kantinum þar sem Suárez hefur verið svo heitur.

„Mér datt ekki í hug að ég fengi að spila þessa stöðu því Messi var að spila fremstur sem nían. Ég velti því bara fyrir mér hvar ég ætti að spila. En okkur kemur samt vel saman jafnt innan sem utan vallar,“ segir Suárez í viðtali við BeIN Sport.

„Stundum er erfitt að skilja þetta því framherji er alltaf reiður þegar hann er ekki aðal stjarnan. En hérna er þetta ekki þannig. Hér er enginn með einhverja leiksýningu. Það eru allir vinir og engin öfundsýki heldur alvöru vinátta,“ segir Luis Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×