Fótbolti

Hérna verður fyrsta stóra EM-æfing strákanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það viðrar vel á Bislett-leikvanginum í Ósló í dag.
Það viðrar vel á Bislett-leikvanginum í Ósló í dag. Mynd/E. Stefán
Allir 23 leikmenn íslenska landsliðsins eru nú saman komnir í Ósló í Noregi og munu síðdegis æfa á hinum sögufræga Bislett-leikvangi í dag.

Fyrir viku síðan hófust æfingar hjá þeim leikmönnum sem voru búnir að spila með sínum félagsliðum en stór hópur leikmanna kláraði sinn síðasta leik fyrir EM nú um helgina.

Þetta er því fyrsti formlegi dagurinn þar sem undirbúningurinn fyrir EM í fótbolta hefst hjá íslenska landsliðinu en strákarnir hafa nú þegar tekið sinn fyrsta fund allir saman í dag.

Ísland leikur gegn Noregi á Ullavaal-leikvanginum á miðvikudag og síðasti leikur strákanna okkar verður gegn Liechtenstein á Laugardalsvelli á mánudag.

Bislett-leikvangurinn er þekktastur fyrir að vera einn þekktasti frjálsíþróttaleikvangur Norðurlandanna en þar hafa mörg heimsmet fallið. Demantamótaröðin í frjálsíþróttum heldur árlega mót á þessum velli.

Vísir mun fylgjast með gangi mála í Ósló næstu dagana og flytja fréttir af íslenska landsliðinu í aðdraganda leiksins á miðvikudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×