Fótbolti

Lars: Líður alltaf eins og ég sé kominn heim þegar ég kem til Íslands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck kvaddi Ísland í kvöld.
Lars Lagerbäck kvaddi Ísland í kvöld. vísir/eyþór
Lars Lagerbäck tók stuttan göngutúr um Laugardalsvöllinn og fékk treyju frá tólfunni þegar hann kvaddi íslensku þjóðina eftir 4-0 sigur strákanna okkar á Liechtenstein í kvöld.

Lagerbäck hefur stýrt liðinu í síðasta sinn á íslenskri grundu en hann lætur af störfum eftir Evrópumótið í Frakklandi.

„Stuðningurinn hefur verið góður frá fyrstu mínútu og ég kann vel að meta það. Þetta hefur verið æðislegur tími og það var frábært að komast á Evrópumótið,“ sagði Lars í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV eftir leikinn.

Lars baðst afsökunar á því enn einu sinni að hafa ekki lært íslensku og sagðist vera of gamall og latur til þess. Hann talaði vel um íslensku þjóðina og sagði að honum liði eins og hann væri að koma heim í hvert sinn sem hann lendir í Keflavík.

„Það er fyndið að segja frá því að flugfélagið sem ég flýg með (Icelandair) segir alltaf „velkomin heim“ þegar ég lendi í Keflavík. Þannig líður mér alltaf þegar ég kem til Íslands, eins og ég sé kominn heim,“ sagði Lars Lagerbäck.

Strákarnir okkar halda til Frakklands á morgun en fyrsti leikur liðsins verður gegn Portúgal 14. júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×