Eiður Smári Guðjohnsen spilaði á laugardag sínar fyrstu mínútur á stórmóti þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Ungverjalandi. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli en Eiður Smári fékk færi til að skora sigurmarkið í blálok leiksins. En allt kom fyrir ekki.
Eiður Smári ræddi við fjölmiðlamenn eftir að íslenska liðið kom aftur til Annecy í gær. Vísir bað hann þá um að lýsa upplifun sinni af mótinu til þessa.
„Þetta hefur verið algjörlega meiriháttar. Þetta er eins og að fara í Disneyland í fyrsta sinn og maður hefur verið lengi að bíða eftir því. Þetta er mikil upplifun,“ sagði Eiður Smári.
„Bara að sjá hvernig tilfinningin er. Að fylgjast með öðrum leikjum og undirbúa sig fyrir leiki. Allur pakkinn er mikil upplifun,“ sagði hann enn fremur en íslenska liðið dvelur á glæsilegu hóteli í þessum fallega bæ sem er staðsettur við rætur frönsku alpanna.
„Maður er kominn með smá tilfinningu. Maður hugsar með sér „æ, ég vil ekki að þetta hætti.“ En ég held að við séum allir staðráðnir í að láta þetta endast eins lengi og hægt er.“
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
Eiður Smári: Vil ekki að þetta hætti

Tengdar fréttir

Eiður Smári: Ég hef engar áhyggjur
Eiður Smári Guðjohnsen ætlar ekki að vera svartsýnn fyrir leikinn gegn Austurríki á miðvikudag.

Strákarnir fengu loksins að hitta konur og börn
"Það var æðislegt,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen sem dreifði huganum með konu sinni og börnum eftir svekkelsið í Marseille í gærkvöldi.

Lars: Verð að hrósa Íslendingum fyrir að sýna Eiði Smára þessa virðingu
Eiður Smári Guðjohnsen fékk ótrúlegar móttökur þegar hann kom inn á gegn Ungverjalandi í gær.

Eiður Smári: Íslenskir stuðningsmenn komnir á hærra plan
Eiður Smári Guðjohnsen segist vera endalaust þakklátur fyrir stuðninginn sem hann og allt íslenska landsliðið fær á EM í Frakklandi.