Gylfi Þór Sigurðsson kom íslenska liðinu yfir á 40. mínútu en þegar tvær mínútur voru til leiksloka stýrði Birkir fyrirgjöf Nemanja Nikolić framhjá Hannesi Þór Halldórssyni og jafnaði metin í 1-1 sem urðu lokatölur leiksins. Birkir var að vonum súr og svekktur í leikslok.
„Það er erfitt að lýsa því, ég er mjög svekktur,“ sagði Birkir.
„Ég var fyrir framan minn mann og ætlaði að hreinsa boltann í burtu. Ef ég hefði verið mjög heppinn hefði hann farið í burtu en ég hitti hann ekki nógu vel,“ bætti bakvörðurinn við.
Íslenska liðið lá mjög aftarlega í leiknum í dag og færðist aftar og aftar eftir því sem á leið. Birkir segir að það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun að falla svona aftarlega á völlinn.
„Uppleggið var ekki að liggja í vörn allan seinni hálfleikinn. Við náðum ekki að halda boltanum nógu vel þegar við unnum hann og fengum alltaf nýja og nýja sókn á okkur,“ sagði Birkir sem kvaðst þó ánægður með varnarleik Íslands í dag og sagði að Ungverjarnir hefðu ekki fengið mörg færi í leiknum.
Ísland er nú með tvö stig og mætir Austurríki í síðasta leik sínum í riðlakeppninni á miðvikudaginn.
„Við erum taplausir en finnst samt eins og við höfum tapað þessum leik. Við þurfum bara að einbeita okkur að næsta leik þar sem við þurfum að ná í þrjú stig,“ sagði Birkir Már að lokum.
Markið má sjá hér að neðan (aðeins aðgengilegt á Íslandi).
Jöfnunarmark Ungverja. 1-1 #EMÍsland https://t.co/xDYd7eXvcV
— Síminn (@siminn) June 18, 2016