Innlent

Glænýrri breiðþotu WOW Air ekið á mastur á Keflavíkurflugvelli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ein af Airbus A-330 vélum WOW Air.
Ein af Airbus A-330 vélum WOW Air. Vísir/Steingrímur Þórðarson
Aflýsa þurfti flugi WOW Air til San Francisco í dag vegna þess að flugvél félagsins var ekið á mastur á Keflavíkurflugvelli.

Verið var að leggja vélinni í stæði þegar atvikið átti sér stað og skemmdist hún á væng við áreksturinn. Svandís Friðriksdóttir, upplýsingafullrúi WOW segir þó að tjónið á vélinni hafi verið smávægilegt.

„Þetta gerðist á mjög litlum hraða og það var aldrei nein hætta á ferð,“ segir Svandís.

Greiðlega gekk að gera við vélina en vegna atviksins var fluginu aflýst til morguns. Hefur farþegum vélarinnar verið komið fyrir á hóteli og munu þeir halda áleiðis til San Francisco á morgun.

Svandís segir að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að koma þeim farþegum heim sem áttu að fljúga með vélinni frá San Francisco aftur til Íslands.

Um er að ræða eina af nýjustu vélum WOW Air, nýja Airbus A-330 breiðþotu. Þoturnar eru þær stærstu í íslenka flugflotanum, 64 metra langar og með 60 metra vænghaf. Opinbert listaverð einnar slíkrar þotu er um 30 milljarðar króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×