Innlent

Ferðaáætlanir stuðningsmanna Íslands riðlast vegna verkfalla

Birgir Olgeirsson skrifar
Strákarnir okkar á æfingu í Annecy.
Strákarnir okkar á æfingu í Annecy. Vísir/Vilhelm
Um það bil fjórðungur af flugmönnum franska flugfélagsins Air France eru í verkfalli til að krefjast betri vinnuskilyrða. Eru þeir þar með í hópi með sorphirðumönnum og lestarstjórum sem krefjast bættra kjara en verkföll flugmanna og lestarstjóra hafa sett ferðaáætlanir þeirra sem eru á leið á leiki Evrópumótsins í knattspyrnu í Frakklandi.

Þar á meðal eru fjöldi Íslendinga sem eiga bókað flug með Air France frá París til St. Etienne þar sem þeir ætla að fylgjast með fyrsta leik Íslands í riðlakeppni mótsins gegn Portúgal.

Nokkuð margir fara á leiki liðsins með Vita-ferðum en Lúðvík Arnarson hjá Vita segir 70-80 prósent af ferðum Air France farnar.

„En það er vissulega búið að hafa áhrif á einhverja en það eru lestarverkföllin sem eru að gera okkur erfiðara fyrir. Það falla niður einstaka lestarferðir út af þessu og það kallar á almenn leiðindi. Þetta er hjá okkur mestmegnis að hafast í bili en maður tekur bara hvern klukkutíma fyrir í einu,“ segir Lúðvík.

Hann telur flesta ná að leysa úr sínum vandræðum en best sé að vera tímanlega í öllu. „Það er bara þannig af mörgum ástæðum ganga hlutirnir hægt og menn verða bara að gefa sér tíma í þetta. Vera í sambandi við þá sem þeir bókuðu hjá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×