Fyrir níu dögum voru Íslendingar hoppandi sigurreifir eftir 1-1 jafntefli gegn Cristiano Ronaldo, draumabyrjun á riðlinum, en eftir sigurinn í gær voru allir í sjokki. Spennufallið var rosalegt. Enginn að syngja, enginn að fagna. Allir bara að ná áttum Hverju í ósköpunum urðum við eiginlega vitni að
Íslenskir stuðningsmenn voru teknir tali fyrir utan Stade de France eftir leik.
Síðasti kaflinn í sögu Eiðs Smára hefur ekki verið skrifaður. Honum var ekki skipt inn á eins og margir áttu von á. En auðvitað vissu Heimir og Lars nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Theodór Elmar og Arnór Ingvi áttu frábæra innkomu, komu inn með orku sem við þurftum á að halda og kláruðu leikinn. Reyndar virtist Birkir Bjarna vera að setja heimsmet í 100 metra hlaupi á síðasta sprettinum upp völlinn, sá sprettur!
Mómentin í leiknum. Skotið hjá Jóa Berg, Hannes í „guð minn góður“ vandræðum á markteig, markið hjá Jóni Daða eftir innkastið á kollinn á Kára, vítaspyrnan í stöngina, jöfnunarmarkið stórkostlega, Kári bjargaði frá Alaba á línu, Hannes varði einn á einn með fótunum og svo markið, og flautað. Þetta var búið. Þetta gerðist, ekkert „næstum því“, við sigruðum Austurríki.

Þetta hlýtur að vera alveg hundleiðinlegt segja stuðningsmenn á faraldsfæti í mikilli kaldhæðni þegar þeir stöðva okkur fjölmiðlamennina á förnum vegi. Skiljanlega. Þvílík forréttindi sem það eru að flylgja strákunum okkar eftir í þessu EM-ævintýri. Vinnan er mikil, engir átta tíma „stimpla sig inn og svo út“ dagar heldur vaknað í síðasta lagi átta og farið að sofa alltof seint. En er einhver að kvarta? Nei, ekki séns. Hugsa að enginn myndi skipta á þessu fyrir nokkuð annað. Þessi pistill er skrifaður í fjögurra tíma lestarferð sem hófst 7:49 í París og lýkur í Annecy, fjallabæ strákanna okkar. Þar hittum við landsliðsþjálfarana, væntanlega brosandi út að eyrum sem munu þó gera sitt besta til að halda kúlinu. Fagmennirnir sem þeir eru.
Við tekur endurheimt hjá okkar mönnum, sem voru örmagna í leikslok í gær eftir síðari hálfleik sem virtist aldrei ætla að enda. Markið hjá Arnóri Ingva tryggi fjögurra daga hlé á milli leikdaga, nauðsynlega hvíld fyrir þreytta fætur. Og svo er það England, já England. Loksins, loksins, loksins. Draumaleikurinn síðan ég byrjaði að fylgjast með fótbolta, og það á stórmóti. Og ekki nóg með það. Við eigum möguleika, heilmikla möguleika.
Orðinn leiður á lestrinum? Sjáðu þá Austurríkismann reyna að næla sér í koss fyrir utan Moulin Rouge með vandræðalegum afleiðingum. Uppákoman er eftir 13 og hálfa mínútu.
Einhverjir stuðningsmenn voru farnir að velta fyrir sér, í sigurvímu og bjartsýniskasti í gærkvöldi, af hverju verðum við ekki bara Evrópumeistarar? Danir gátu það 1992 og Grikkir 2004, landslið sem enginn, bókstaflega enginn, hafði trú á að myndu fara alla leið. Enginn hafði trú á Íslandi en það er allt hægt í fótbolta.
Auðvitað er allt hægt og hvernig sem fer hafa strákarnir okkar öðlast virðingu alls heimsins. Víkingarnir sem hafa trú á sjálfum sér og neita að gefast upp, sama hver andstæðingurinn er. Spyrjið bara Hollendinga, Tékka, Portúgala, Ungverja, Austurríkismenn, Tyrki og Svisslendinga. Og kannski Englendinga? Sjáum til á mánudaginn.