Innlent

Enn óskað eftir starfsliði í Sveinsgil

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar auðveldar björgunarstörf sem eru ansi erfið.Vísir/Landsbjörg
Enn heldur leit áfram af frönskum ferðamanni sem féll niður um ísbrú og ofan í á við Sveinsgil seinnipartinn í gær.  Um hádegi var skipt um mannskap að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.

„Hvíla þá sem eru búnir að koma að aðgerðinni frá því snemma í morgun og nótt og fá úthvíldan hóp inn.  Óskað hefur verið eftir fleira fólki frá björgunarsveitum frá Akranesi í vestri til Klausturs í austri og er verið að vinna í því,“ segir í tilkynningu.

Unnið hefur verið að því að brjóta upp ís og klaka og mynda holur sem snjó er mokað upp úr. Þær verða síðan notaðar til þess að skoða undir 25 metra snjóhengju sem maðurinn féll fram af síðdegis í gær. Maðurinn var á ferðalagi ásamt samlanda sínum. Í dag verður haldið áfram að brjóta leið í gegnum ísinn en notast er við keðju- og rafmagnssagir. 

Björgunarsveitir hafa verið á fullu í gær, nótt og morgun við vinnuna og skipulagið er að halda áfram með sama hætti. Í kvöld verður staðan tekin að nýju og næstu skref ákveðin. Þetta segir Víðir Reynisson lögreglu fulltrúi á staðnum. 

„Þyrla Landhelgisgæslunnar mun einnig koma að leitinni í dag með því að aðstoða við að ferja fólk og búnað frá Landmannalaugum á slysstað,“ segir í tilkynningu en þyrlan auðveldaði björgunarsveitarmönnum störfin mjög í gær þar sem erfitt er að komast á slysstað. Ekið er í gegnum Jöklagil en í gegnum það rennur Laugarkvísl sem var ansi vatnsmikil í nótt, þá þarf að ganga yfir fjallahrygg í um 45 mínútur áður en komið er að staðnum þar sem slysið varð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×