Einhver rigning verður á landinu í dag, þó ekki á því vestanverðu þar sem verður að mestu þurrt. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Útlit er fyrir sólarglennur í vikunni en þó virðist sem Costa Del Sol veðrið sem leikið hefur við Íslendinga að undanförnu láti ekki sjá sig með sama hætti á komandi dögum.
„Norðaustlæg átt 3-10 m/s, en 8-13 um landið NV-vert. Súld eða dálítil rigning fyrir norðan og austan, stöku skúrir S-til, en að mestu þurrt V-lands. Heldur hægari á morgun. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast SV-til.“
Veður verður milt áfram.
„Í dag spáir norðaustlægri átt með dálítilli vætu fyrir norðan og austan, en S-lands má búast við einhverjum skúrum þó að þeir verði nú máttlausari en í gær,“ segir á vef Veðurstofunnar.
„Um landið vestanvert verður að öllum líkindum þurrt, en SV-lands má þó búast við stöku skúrum og áfram verður hlýjast þar eða upp í um 15 stig. Á miðvikudag lítur út fyrir að rofi til fyrir norðan og fram að helgi má búast við sólarglennum þar, en stöku skúrir eða rigning sunnan heiða. Helgarspáin er enn að taka á sig áreiðanlega mynd og ætti að skýrast betur á næstu dögum.“
Á þriðjudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað og dálítil væta NA-til, rigning með köflum sunnanlands, en yfirleitt þurrt um landið V-vert. Hiti frá 6 stigum með NA-ströndinni, upp í 16 stiga hiti á SV-landi.
Á miðvikudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og skúrir, en rofar smám saman til um landið norðanvert. Hiti 8 til 15 stig.
Á fimmtudag:
Vaxandi suðaustlæg átt og þykknar upp, 8-15 m/s og rigning S- og V-lands undir kvöld, en hægari vindur og bjart með köflum um landið N- og A-vert. Hiti 9 til 14 stig.
Á föstudag:
Suðlæg eða breytileg átt, rigning með köflum S-lands og hiti 9 til 14 stig, en þurrt fyrir norðan og hiti upp í 19 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir vestlæga átt og rigningu um allt land, einkum V-til. Kólnar í veðri.
Sólin glennir sig í vikunni
Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
