Innlent

Faðir 14 ára drengs ósáttur við Icelandair: „Setja frímerki á rassinn og honum hent inn í næstu vél“

Atli Ísleifsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Drengurinn var með stand-by miða til Denver en breytti miðanum upp á sitt einsdæmi eftir að ljóst var að vélin til Denver væri fullbókuð.
Drengurinn var með stand-by miða til Denver en breytti miðanum upp á sitt einsdæmi eftir að ljóst var að vélin til Denver væri fullbókuð. Vísir/Vilhelm
Fjölskylda fjórtán ára íslensks drengs er mjög ósátt við Icelandair eftir að starfsfólk flugfélagsins heimilaði drengnum að fljúga til New York þegar hann átti upphaflega að fljúga til Denver, án þess að fá nokkra staðfestingu eða heimild frá foreldrum. 

Drengurinn var með svokallaðan standby-miða til Denver, þar sem hann býr ásamt foreldrum sínum, en með slíkum miðum kemst maður með vélinni, sé á annað borð laust sæti, en móðir hans vinnur í fluggeiranum.

Þegar upp var staðið reynist hins vegar vélin til Denver full og ákveður drengurinn upp á sitt einsdæmi að fara með annarri vél til New York, þar sem systir hans, amma og afi búa.

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að haft hafi verið samband við fjölskyldumeðlim áður en drengurinn fór um borð í vélina til New York, nánar um það hér.

Heldur að litli bróðir sé að fíflast

Henry Ragnarsson, faðir drengsins, kveðst mjög óánægður með að drengurinn hafi komist upp með að komast í vélina til New York án samþykkis foreldranna. „Það hafði enginn samband við mig. Þetta á ekki að vera hægt. “

Henry segist hafa komist að því að barnið væri á leiðinni til New York þegar fjölskyldan fær tölvupóst frá Icelandair, tíu mínútum fyrir brottför, um að miðanum til Denver hafi verið breytt og gildi nú til New York.

„Drengurinn var þá búinn að hringja til systur sinnar [sem býr í New York] og segir „Við sjáumst á eftir, ég er að koma til New York.“ Hún heldur auðvitað að hann sé að grínast, að þetta sé bara litli bróðir að fíflast.

Hann fer óáreittur í gegnum allt heila klabbið. Icelandair sendir hann af stað án þess að hafa hugmynd um að það sé nokkur maður í New York að fara að sækja hann,“ segir Henry.

Beðinn um að hringja aftur á morgun

Henry segir að eftir að hann hafi fengið tölvupóstinn um að miðanum hafi verið breytt hafi hann hringt í ofvæni til Íslands. „Ég tala þar við einhvern hjá Icelandair sem segist eitthvað hafa heyrt af þessu. Hann segist ætla að kanna málið og hringja aftur eftir smástund. Hann hringdi aldrei til baka.

Ég hringi svo aftur í Icelandair um klukkutíma síðar og næ þar í aðra manneskju. Hún segist vera nýkomin á næturvakt og ekkert vita um málið.

Ég spyr þá hvort Icelandair ætli þá að láta drenginn labba einan út úr flugstöðinni í New York. Fulltrúi Icelandair segist þá halda að stöðvarstjórinn í New York sé kominn í málið. Ég spyr þá af hverju enginn hafi hringt í okkur, foreldra drengsins, til þess að láta okkur vita. Ég fæ engin svör við því og er beðinn um að hringja aftur á morgun.“

Engin fylgd í New York

Henry segir að amma stráksins, sem býr í New York, hafi þá hringt í stöðvarstjórann í New York til að spyrja hvað sé eiginlega á seyði.

„Þar segist stöðvarstjórinn hafa fengið skilaboð frá Icelandair um að það sé strákur um borð í vélinni til New York sem hafi átt að fara til Denver og að hún hafi verið beðin um að taka á móti honum.

Allt í lagi með það, við bíðum í fimm og hálfan tíma eftir að flugvélin lendi. Ég fæ svo símtal frá stráknum þegar hann er lentur þar sem hann er kominn í gegnum landamæraeftirlitið og er að bíða eftir töskunni sinni. Engin manneskja er hins vegar sjáanleg í kringum hann [til að fylgjast með honum].“

Henry segir að stöðvarstjórinn í New York hafi svo haft samband við sig og greint frá því að taska drengsins hafi orðið eftir í Keflavík, þar sem hann hafi innritað sig sem farþega á leið til Denver, en síðar farið um borð í vél til New York.

Frímerki á rassinn og hent í næstu vél

Henry segist mjög óánægður með Icelandair í þessu máli. „Þarna er strákurinn, fjórtán ára pjakkur, að taka einhverja ákvörðun af því að vélin til Denver er full og hann langar til þess að heimsækja ömmu sína í New York. Það er svo bara tekið gott og gilt. Menn setja frímerki á rassinn og honum hent inn í næstu vél án þess að töskurnar fari með. Það segir manni að þetta hafi ekki farið í gegnum rétt ferli. Þeir hafa til að mynda enga staðfestingu á því að barnið sé til dæmis ekki að flýja að heiman. Hann gæti verið að flýja land, hvað vita þeir,“ spyr Henry.

Hann segir að vinnureglur hjá öllum flugfélögum séu voðalega einfaldar. „Ef þú kemur inn á svona standby-miða og það er ekki pláss fyrir þig, þá ferðu heim. Það er hægt að skipta um áfangastað en það er heil mikið vesen. Það er ferli sem þarf að fara í gegnum. Hann var ekki með neitt skriflegt frá foreldrum sínum um að hann mætti skipta um áfangastað. Þeir reyna að hringja í mig og mömmu stráksins, ná ekki sambandi, en hann er samt sendur af stað án þess að vita hvort nokkur tæki á móti honum í New York.“

Uppfært klukkan 14:40

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að haft hafi verið samband við afa drengsins til að ganga úr skugga um að hann mætti ferðast til New York. Ýmislegt geti komið upp þegar ferðast sé á Stand by miða.

„Algengt er þess vegna að farþegar á stand-by geri breytingar á plönum sínum á síðustu stundu, eins og hér var gert.“ 

Nánar er rætt við Guðjón í fréttinni hér að neðan.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×