Ein af breytingunum sem þingið gerði var að flýta endurskoðun samninganna, en upphaflega átti fyrsta endurskoðun þeirra að fara fram 2019. Í staðinn voru sett inn ákvæði um að ráðherra landbúnaðarmála skipi samráðshóp sem hafi það hlutverk að endurskoða búvörusamningana.
Hópurinn skal skipaður fyrir 18. október nk., en í honum eiga að sitja fulltrúar afurðastöðva, atvinnulífsins, bænda, launþega og neytenda. Hann á að ljúka störfum fyrir 2019. Einnig fóru inn ákvæði sem skylda afurðastöðvar til að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk á verði sem er í samræmi við ákvörðun verðlagsnefndar búvara.
Önnur veigamikil breyting er að kvótakerfi í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verður lagt af. Í staðinn verða teknar upp greiðslur út á innvegna mjólk og gripagreiðslur í mjólkurframleiðslu og álagsgreiðslur út frá gæðastýrðri framleiðslu í sauðfjárrækt. Einnig voru sett inn ákvæði sem skylda ráðherra til að skipa áheyrnarfulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkur í verðlagsnefnd búvara. Þá eru framlög vegna nýsköpunar í landbúnaði aukin.

Kostnaður ríkissjóðs fyrsta ár samninganna er áætlaður um 13,7 milljarðar króna. Áformað er að upphæðirnar fari lækkandi út samningstímann, en gert er ráð fyrir að þær verði 12,6 milljarðar árið 2026. Samkvæmt samningunum munu 132,2 milljarðar greiðast úr ríkissjóði á samningstímanum vegna þeirra. Þó skal tekið fram að upphæðirnar gætu breyst sökum verðlagsbreytinga.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu