Búvörusamningurinn sem samþykktur var á Alþingi í gær fer öfugt ofan í mannskapinn, eins og Vísir hefur greint skilmerkilega frá. Nú hefur verið hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu þar sem skorað er á Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, að synja lögunum undirritunar og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Það er okkar skoðun að það sé með öllu ótækt að binda hendur þings og þjóðar næstu 10 árin með slíkum samningi og að kostnaður neytenda vegna þessa samnings, sem er áætlaður um milljarður á mánuði næstu 10 árin, sé alfarið óásættanlegur og óréttlætanlegur,“ segir í klausu þar sem undirskriftasöfnuninni er fylgt úr hlaði.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega fimm hundruð manns skrifað nafn sitt við áskorunina. Þá er nefnt að það virðist sem lögin komi sér fyrst og síðast vel fyrir hluta bænda, minni hagsmunaaðila en verji fyrst og fremst stöðu milliliðanna í framleiðsluferlinu almenningi í landinu til verulegs kostnaðarauka.
Nú reynir á hinn nýkjörna forseta lýðveldisins en búvörusamningurinn var samþykktur með afar fáum atkvæðu á þingi, eða aðeins 19 og er áætlað að hann muni hið minnsta kosta neytendur 130 milljarða alls; mjög líklega talsvert meira því samningurinn er verðtryggður.

