Sigurður Ingi valdi að tilkynna um framboð sitt í kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi formanns.
„Ég vil segja að síðustu vikurnar hafa gert það að verkum að ég hef farið að hugsa um þetta af einhverri alvöru,“ segir Sigurður Ingi.

„Ég tel það óheppilegt fyrir flokkinn að halda áfram í því andrúmslofti sem hann er í í dag. Það er best að fá skýra lausn í málið á flokksþingi hver sem hún verður. Sá sem kosinn er formaður hefur þá óskorað umboð flokksmanna til að ganga til kosninga.“
Þingflokkur Framsóknarflokksins var kallaður saman með skömmum fyrirvara til fundar í Alþingishúsinu í hádeginu í gær til að ræða forystu flokksins. Í rúmar þrjár klukkustundir fundaði þingflokkurinn um stöðu formannsins og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru umræður erfiðar en hreinskilnislegar.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tilkynnti Sigurður Ingi ekki um formannsframboð á fundinum.

„Það er augljóst að Sigmundur Davíð er umdeildasti stjórnmálamaður landsins og aðrir leiðtogar myndu helst vilja sleppa því að vinna með honum. Sigurður Ingi hefur hins vegar reynst sitja á friðarstóli sem forsætisráðherra og virðist njóta trausts og virðingar annarra forystumanna í stjórnmálum. Það skiptir máli í því mati sem Framsóknarmenn standa frammi fyrir.“
Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Fréttablaðsins.