Fótbolti

Klinsmann hjálpaði Aroni í gegnum meiðslin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klinsmann vill greinilega fá Aron Jóhannsson aftur í landsliðið.
Jürgen Klinsmann vill greinilega fá Aron Jóhannsson aftur í landsliðið. vísir/getty
Aron Jóhannsson, Íslendingurinn í liði Werder Bremen, er kominn aftur af stað eftir langvarandi meiðsli en hann skoraði á dögunum sitt fyrsta mark í ellefu mánuði fyrir Brimarborgarliðið.

Hann fær nú reyndar tveggja leikja hvíld eftir að næla sér í rautt spjald í síðasta leik fyrir kjaftbrúk sem Aron segir byggt á misskilningi. Hann var einnig sektaður um 8.000 evrur.

Sjá einnig:„Takk kærlega Ísland fyrir Aron Jóhannsson“

Aron hefur meiðslanna vegna ekki spilað fyrir bandaríska landsliðið í rúmt ár en hann er búinn að vera fastamaður í bandaríska hópnum í þrjú ár og spilaði einn leik á HM 2014 í Brasilíu.

Í viðtali við íþróttadeild segist Aron alls ekki hræddur um stöðu sína hjá bandaríska liðinu þrátt fyrir að vera svona lengi frá. Þvert á móti býst hann við að vera í næsta hóp en Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, hefur fylgst vel með Aroni í meiðslunum og gert hvað hann getur til að hjálpa honum af stað.

„Ég skil að enginn er búinn að vera að reikna með mér í hóp undanfarið þar sem ég er búinn að vera frá í eitt ár. Ég á samt von á því að vera valinn í næsta hóp. Það eru tveir vináttuleikir framundan í október,“ segir Aron við Vísi.

Sjá einnig:Aron um rauða spjaldið: Dómaranum misheyrðist

„Jürgen er búinn að vera að hjálpa mér í gegnum meiðslin. Hann þekkir sérfræðinga í München sem hann sendi mig til þar sem ég var í skoðun og meðhöndlun. Aðstoðarþjálfari bandaríska liðsins, sem er frægur fyrrverandi leikmaður Bremen, er líka búinn að kíkja hingað til mín nokkrum sinnum,“ segir Aron Jóhannsson.

Ítarlegt viðtal við Aron um meiðslin, endurkomuna og tilfinningaríka fagnið gegn Augsburg verður í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Þjálfari Arons rekinn

Viktor Skripnik hefur verið rekinn sem þjálfari Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×