Áfengislausu víni og léttbjór er stillt upp á áberandi stöðum í nokkrum verslunum í miðbæ Reykjavíkur og telur Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, að verslanirnar séu að reyna að narra ferðamenn til að kaupa vöruna. „Við höfum líka fengið ábendingar frá íbúum í miðbænum sem þekkja þetta vel: þegar svekktir túristar koma glaðir út með kassa af léttvíni en það var kannski ekki alveg það sem þeir ætluðu að kaupa,“ segir Teitur.

Teitur sýndi fréttamanni hvernig léttbjór og áfengislausu víni er stillt upp í verslanir í miðbænum. Hann útbjó skilti og stillti því upp í einni versluninni. „Ég hef ákveðið að gefa þessari verslun þetta skilti og vona að það fái að standa hér sem lengst ,“ segir Teitur en upptöku af atvikinu má sjá í spilaranum hér að ofan.
Í samtali við fréttastofu sagði formaður Neytendastofu að tilefni væri til að kanna málið og skoða hvort framsetning vörunnar sé með þeim hætti að það geti talist vera villandi viðskiptahættir samkvæmt lögum.