Kristján eða Kiddi eins og hann er kallaður, greindist með heilaæxli árið 2006. Hann hefur barist við sjúkdóminn í nærri tíu ár og farið í nokkrar lyfjameðferðir og í erfiða geislameðferð. Hjónin eiga saman þrjú börn og hefur ferlið reynst öllum erfitt.
Kristján tók þá ákvörðun með lækni sínum og nánustu fjölskyldu í sumar að hann myndi ekki fara í fleiri meðferðir.
Hugmyndin kom frá starfsfólkinu
Saga Kidda og fjölskyldu hans vakti mikla athygli og greindi DV frá því í gær að WOW air hefði gefið fjölskyldunni flugmiða svo að þau gætu ferðast saman, en þau vilja skapa góðar minningar þá mánuði sem Kiddi á eftir.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að hugmyndin hafi komið upp hjá starfsfólkinu sjálfu. „Við ákváðum að hefja svona smá söfnun hérna innanhúss fyrir þau. Henni lýkur á mánudag og hún stendur nú yfir. WOW gaf fjölskyldunni fimm flugmiða til að fara saman hvert sem þau vilja af okkar áfangastöðum. Svo vorum við starfsfólkið að spjalla saman og þá langaði okkur að safna fyrir gjaldeyri fyrir þau,“ segir Svanhvít í samtali við Vísi. „Okkur langaði að styðja við fjölskylduna. Hótel og uppihald kostar náttúrulega sitt.“
Viðtalið við Kidda og Kristínu úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér fyrir neðan.