Körfubolti

Hildur áfram ósigruð sem þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir ásamt Sigríði H. Kristjánsdóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.
Hildur Sigurðardóttir ásamt Sigríði H. Kristjánsdóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Breiðabliks. Mynd/Heimasíða Breiðabliks
Hildur Sigurðardóttir er að byrja þjálfaraferil sinn vel í körfuboltanum en þessi sigursæli leikmaður tók við kvennaliði Breiðabliks fyrir þetta tímabil.

Breiðablik er í 1. deildinni og hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína undir stjórn Hildar. Hildur er því líkleg til að koma liðinu upp í Domino´s deildina í fyrstu tilraun.

Breiðablik vann ellefu stiga sigur á KR í kvöld, 59-48, en Blikakonur höfðu áður unnið Þór Akureyri og Fjölni.  Hildur hefur þar með unnið þrjá fyrstu mótsleiki sína sem þjálfari og er greinilega að finna sig vel á nýjum stað.

Leikurinn í kvöld var samt fyrsti sigur Hildar á kvenþjálfara. Heiðrún Kristmundsdóttir þjálfar lið KR en karlar þjálfa bæði lið Þórs og lið Fjölnis. Þetta var jafnramt fyrst tap KR-liðsins í vetur.

Hildur lagði skóna á hilluna vorið 2015 eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð með sínu uppeldisfélagi, Snæfelli. Hildur hafði áður orðið fimm sinnum Íslandsmeistari með KR.

Telma Lind Ásgeirsdóttir skoraði 15 stig fyrir Blikaliðið í kvöld, Shanna Dacanay var með 11 sitg og Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 10 stig og tók 12 fráköst. Kristbjörg Pálsdóttir var með 13 stig hjá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×