Fótbolti

Henderson tekur við fyrirliðabandinu af Rooney sem byrjar á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney á fundinum í kvöld.
Wayne Rooney á fundinum í kvöld. Vísir/Getty
Liverpool-maðurinn Jordan Henderson verður fyrirliði enska landsliðsins á móti Slóveníu á morgun en þetta kom fram á blaðamannafundi í kvöld.

Wayne Rooney er fyrirliði enska landsliðsins en Gareth Southgate, starfandi þjálfari enska landsliðsins, hefur ákveðið að Rooney byrji leikinn á bekknum.

Wayne Rooney mætti á blaðamannafund í kvöld ásamt Gareth Southgate vitandi það að hann myndi missa bæði fyrirliðabandið og sætið í byrjunarliðinu.

„Auðvitað vill ég fá að spila. Ég skil samt og virði ákvörðun stjórans. Ég mun styðja leikmenn liðsins hundrað prósent og reyna allt sem ég get til að hjálpa þeim að ná í þessi þrjú stig," sagði Wayne Rooney.

„Ég verð síðan tilbúinn að koma inn á bekknum ef að það er þörf á því. Ég er mjög stoltur að fá að keppa fyrir hönd þjóðar minnar hvort sem ég er í byrjunarliðinu eða á bekknum," sagði Rooney.

„Þetta er fótboltaleg ákvörðun. Ég tók hana út frá því hvernig liði við erum að fara að mæta. Þetta var erfið ákvörðun," sagði Gareth Southgate.

„Ég er búin að vera mjög hrifinn af Jordan Henderson og það sem stendur upp úr hjá mér að hann þurfti að taka við fyrirliðabandi hjá fótboltaklúbbi af manni eins og Steven Gerard," sagði Southgate.

Southgate hrósaði líka Wayne Rooney fyrir að sýna mikinn karakter með því að mæta á blaðamannafundinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×