Körfubolti

Snæfellsliðið án Pálínu í toppslagnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir í leik með Snæfelli í vetur.
Pálína Gunnlaugsdóttir í leik með Snæfelli í vetur. Vísir/Anton
Íslandsmeistarar Snæfells verða án lykilmanns í toppslagnum á móti Skallagrím í 8. Umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta í Hólminum í kvöld.

Snæfell og Skallagrímur hafa bæði 10 stig eftir sjö umferðir en leikur liðanna í Stykkishólmi í kvöld verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Snæfellskonur þurfa þar að spjara sig á reynslumikillar landsliðskonu en Pálína Gunnlaugsdóttir er veik og missir af leiknum. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, staðfesti þetta við íþróttadeild 365.

Pálína Gunnlaugsdóttir er með 8,3 stig og 1,9 stoðsendingar að meðaltali á 21,0 mínútu í leik í fyrstu sjö umferðum Domnino´s deildarinnar.

Pálína er á sínu fyrsta tímabili með Snæfelli eftir að hafa spilað með Haukum í fyrravetur og Grindavíkur veturinn þar á undan.

Skallagrímur vann 11 stiga sigur á Snæfelli í fyrsta leik liðanna í vetur en Pálína var þá með 9 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.

Snæfellsliðið er búið að skipta um bandarískan leikmann síðan þá en Snæfell hefur unnið tvo fyrstu leiki sína með Aaryn Ellenberg-Wiley innanborðs.

Ellenberg-Wiley var með 26 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar í fjögurra stiga deildarsigri á Keflavík og 25 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar í þriggja stiga bikarsigri á Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×