Innlent

Sýklalyfjanotkun sem fyrr mest á Íslandi af Norðurlöndunum

Svavar Hávarðsson skrifar
Ávísanir á sýklalyf eru áfram hlutfallslega mestar hjá börnum 0-4 ára.
Ávísanir á sýklalyf eru áfram hlutfallslega mestar hjá börnum 0-4 ára. vísir/pjetur
Sýklalyfjanotkun er sem fyrr hæst á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin, en er um miðbik ef miðað er við öll Evrópulönd. Hins vegar er sýklalyfjanotkun hjá dýrum hér á landi áfram ein sú minnsta í Evrópu og hefur minnkað stöðugt frá 2010.

Þetta kemur meðal annars fram í nýrri skýrslu sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum.

Kostnaður vegna sýklalyfja á verðlagi ársins 2015 var um milljarður króna, heldur hærri en á árinu 2014 og var hann í fjórða sæti yfir söluverðmæti allra lyfjaflokka á Íslandi. Hins vegar var kostnaður sýkingalyfja hjá dýrum rúmlega 120 milljónir króna, heldur hærri en á árinu 2014. Heildarsala sýklalyfja hjá mönnum jókst um tæp fjögur prósent á milli áranna 2014 og 2015 en salan hafði áður verið minnkandi frá 2010.

Þessi aukning 2014-2015 virðist einkum skýrast af aukinni notkun innan heilbrigðisstofnana en á því eru ekki fullnægjandi skýringar, að sögn sóttvarnalæknis.

„Af skýrslunni má draga þá ályktun að enn eigum við Íslendingar nokkuð í land með að draga úr notkun sýklalyfja hjá mönnum og draga þannig úr hættunni á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. […] Til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis þurfa margir aðilar hér á landi að taka höndum saman […] stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja innan sem utan heilbrigðisstofnana, halda sýklalyfjanotkun áfram í lágmarki hjá dýrum, byggja upp viðunandi salernisaðstöðu fyrir ferðamenn og efla eftirlit með bakteríum í innlendum sem erlendum ferskum kjötvörum. Aðeins á þann hátt munum við ná árangri í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis,“ segir í skýrslunni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×