Veðurstofan varar við suðaustan hvassviðri eða stormi, það er yfir 20 metrum á sekúndu, víða um land á morgun með talsverðri rigningu sunnan og vestan til.
Í tilkynningu sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér vegna veðursins þar sem segir að börn gætu átt erfitt með að ganga í skólann í fyrramálið, föstudaginn 11. nóvember. Slökkviliðið brýnir það því fyrir foreldrum og forráðamönnum að fylgjast vel með fréttum.
Veðurhorfur næstu daga samkvæmt vef Veðurstofu Íslands:
Suðaustan 8-15 metrar á sekúndu og rigning eða slydda vestanlands í kvöld. Hvessir í nótt og suðaustan 18-25 metrar á sekúndu og rigning í fyrramálið, hvassast suðvestan til og talsverð eða mikil sunnan- og vestanlands á morgun. Snýst í vestan 8-15 metrar á sekúndu vestan til síðdegis og dregur úr rigningu. Hægt hlýnandi veður og hiti 6 til 13 stig á morgun, hlýjast á Norðvesturlandi.
Á laugardag:
Vestan 8-15 metrar á sekúndu og rigning í fyrstu austanlands, en léttir síðan til þar. Annars víða skúrir eða él. Vaxandi suðaustanátt og slydda suðvestan til um kvöldið. Hiti 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Sunnan- og suðvestan hvassviðri og talsverð rigning, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 4 til 9 stig. Hægari og skúrir eða slydduél um kvöldið, en léttir til eystra og kólnar í veðri.
Á mánudag:
Suðvestanátt og skúrir eða él, en bjartviðri austanlands. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.
