„Þetta er frábær leið til að kynnast fólki og einnig finnst manni eins og maður sé að gera gagn,“ segir Hrönn Björgvinsdóttir, einn sjálfboðaliða Rauða krossins. Hún hefur í rúman mánuð kennt sýrlenskri konu íslensku með ágætum árangri.
„Þau eru auðvitað í skóla á kvöldin þar sem þeim er kennd íslenska. Þetta er bara ofan á það nám,“ segir Hrönn og bætir við að þær hittist til skiptis heima hjá hvor annarri og spjalli fyrst um daginn og veginn áður en þær fari í íslenskuna.
„Ég er í fæðingarorlofi og hún heimavinnandi. Mér finnst við hafa tengst vel og erum ágætis vinkonur í dag. Til þess er leikurinn kannski gerður,“ segir Hrönn.

„Viðtökurnar voru mjög góðar og nú höfum við sjö sjálfboðaliða sem vilja kenna íslensku í frítíma sínum. Verkefnið hefur gengið vel og ný vinatengsl hafa myndast sem er mjög mikilvægt.“
Alls komu 26 sýrlenskir flóttamenn til Akureyrar í janúar á þessu ári. Að sögn Akureyrarbæjar hefur ágætlega gengið fyrir fólkið að aðlagast breyttu lífi. Líklegt þykir að í hópinn á nýju ári bætist fimm manna fjölskylda sem hefur verið á flótta í um fjögur ár. „Við reynum allavega að hafa þetta praktískt,“ segir Hrönn.
„Við reynum að tala um það hversdagslega til að styrkja þann orðaforða. Þannig aðlagast vonandi fólkið betur og getur notað íslenskuna til að tjá sig.“