Vélin er ónothæf til flugs og hefur önnur verið pöntuð að utan til að ferja farþegana til Kaupmannahafnar síðar í dag. Áætluð brottför er klukkan 15:40.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow, segir í samtali við Vísi að 190 farþegar hafi átt bókað far með vélinni. Þeir hafi fengið upplýsingar og tölvupóst um gang mála og verði áfram haldið upplýstum í dag. Eins og staðan sé núna verði brottför klukkan 15:40.
Söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir er einn farþeganna sem sér fram á níu tíma bið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag. Hún segir farþega hafa fengið 1500 krónur frá flugfélaginu vegna tafarinnar en sumir farþeganna sjái fram á að missa af tengiflugi sínu í Kaupmannahöfn vegna tafarinnar.
Uppfært klukkan 12:07
Flugvélin var í flugstæði en ekki á flugbrautinni eins og fram kom í fyrri frétt. Beðist er afsökunar á þessu.