Innlent

Segir flugvöll í Vatnsmýri „gegn hagsmunum landsbyggðarinnar“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Róbert Guðfinnsson kaupsýslumaður á Siglufirði segir flugvöllinn í Vatnsmýri standa gegn hagsmunum landsbyggðarinnar. Staðsetning hans hefti vöxt ferðaþjónustu í byggðum landsins. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Róbert sagðist telja að hagsmunum landsbyggðarinnar væri betur borgið ef flugvöllurinn væri staðsettur í Hvassahrauni þannig að hægt væri að tengja innanlandsflug og alþjóðaflug saman þannig að ferðamenn ættu auðveldara með að ferðast til byggða úti á landi.

Róbert er þeirrar skoðunar að fjármögnun nýs alþjóðaflugvallar ætti að fara fram með sölu á landi borgarinnar og ríkisins í Vatnsmýrinni. Vatnsmýrin ætti ekki að vera einkamál Reykjavíkurborgar.

„Ég hef komið með þá hugmynd að landið verði selt og andvirði þess verði notað til að byggja upp nýjan alþjóðlegan flugvöll með innanlandstengingu í Hvassahrauni. Ég tel að það sé mun nærtækara en að reyna að bæta Keflavíkurflugvöll.“

Róbert sagðist oft hafa heyrt þá umræðu að Ísland væri uppselt, að það væri mikill troðningur á ferðamannastöðum en benti á að það ætti einungis við um ákveðin svæði.

„Ferðamenn eru dregnir hingað til Reykjavíkur og síðan sendir Gullna hringinn. Er það öll náttúra Íslands?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×