Vervoort glímir við sjaldgæfan vöðvahrörnunarsjúkdóm en verkirnir eru svo svakalegir að hún vekur nágranna sína með öskrum á næturnar. Hún segir sögu sína í afar áhugaverðu viðtali við breska ríkisútvarpið.
Vervoort er frá bænum Diest í Belgíu og er kölluð „The Beast from Diest“ eða skrímslið frá Diest. Þar er hún elskuð og dáð en risa auglýsingaskilti má finna í bænum með mynd af henni.
Líknardráp var gert löglegt í Belgíu árið 2002 en afar erfitt er að komast í gegnum pappírsvinnuna og fá leyfið. Líknardráp er aðeins fyrir fólk með ólæknandi sjúkdóma en það er því miður raunveruleiki þessarar belgísku afrekskonu.

„Ég veit hvernig mér líður núna en ég veit ekki hvernig líðanin verður eftir hálftíma. Kannski mun mér líða alveg skelfilega og ég fer í flogakast. Ég græt og öskra af sársauka. Ég þarf mikið af verkjalyfjum til að ráða við þetta,“ segir Vervoort sem greindist með sjúkdóminn 21 árs gömul.
„Ég er oft spurð hvernig ég get náð svona árangri og brosað þrátt fyrir að vera á svona mikið af lyfjum sem éta upp vöðvana. Fyrir mér eru íþróttir og hjólastólasprettur einskonar lyf.“
Vervoort vann sem fyrr segir gull og silfurverðlaun á Ólympíumótinu í Ríó en þangað ætlaði hún ekki að fara nema að hún væri komin með líknardrápsleyfið.
„Ég var svo þunglynd að ég hefði aldrei geta keppt án þess að vita af leyfinu. Ég hugsaði bara um hvernig ég ætti að taka eigið líf,“ segir hún.
„Öllum sem fá þetta leyfi í Belgíu líður vel því það vill enginn deyja í sársauka. Það er gott að geta valið stundina sjálf. Það að geta valið hvenær þú ferð og vera með þeim sem þú elskar er svo fallegur dauðdagi. Fyrir mér er dauðinn friðsæll. Eitthvað sem lætur mér líða vel,“ segir Marieke Vervoort.