Innlent

Fannst þau eins og á valdi fjárkúgara í langþráðri brúðkaupsferð á Íslandi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
"Það er talsvert af ferðamönnum í búðunum í Reykjavík en maður sér varla nokkurn mann kaupa nokkuð,“ segja hjónin Mark og Sarah Bellew.
"Það er talsvert af ferðamönnum í búðunum í Reykjavík en maður sér varla nokkurn mann kaupa nokkuð,“ segja hjónin Mark og Sarah Bellew. Vísir/Vilhelm
„Við vorum búin hlakka lengi til og spara fyrir þessari ferð,“ segja hjónin Sarah og Mark Bellew vonsvikin á síðasta degi fyrstu heimsóknar sinnar til Íslands. Ástæða vonbrigðanna er verðlagið.

„Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt,“ segja þau Sarah og Mark þar sem þau sitja í anddyrinu á Center Hotel við Þingholtsstræti.

Daginn áður höfðu þau farið Gullna hringinn svokallaða; á Þingvöll og Gullfoss og Geysi. Að auki var heimsókn í baðstaðinn The Secret Lagoon á Flúðum innifalin í verðinu og veik von um norðurljós á himni en engar máltíðir. Þau sýna kvittunina. Á henni stendur skýrum stöfum: 87.800 krónur. Verðið er sem sagt 43.900 krónur á manninn.

„Við erum bara hér í örfáa dag. Allir segja að þessa staði verði maður einfaldlega að sjá og þetta var það ódýrasta sem við fundum,“ segir Mark. Farið var með fimm farþega jeppa en þau voru reyndar þau einu sem mættu. „Við veltum því ekki alvarlega fyrir okkur að leigja bíl sjálf til að fara þennan hring af því að aðstæður geta verið ótryggar en hefðum svo sem allt eins getað gert það.“

Sarah og Mark gengu í hjónaband í september en geymdu brúðkaupsferðina til Íslands þar til nú. Þau keyptu flug og gistingu á verði sem þau segja að hafi verið tiltölulega sanngjarnt. Þau hafi hins vegar fengið áfall við komuna.

„Við höfðum heyrt að verðlagið hér væri hátt og áttum von á það væri kannski eins og í London. Við höfum farið víða, til dæmis til Moskvu þar sem eru mjög dýr hverfi en þetta slær jafnvel það út,“ segja hjónin sem ætluðu að gera vel við sig þá fáu daga sem brúðkaupsferðin átti að vara. Lítið varð af því.

„Verðlag á veitingastöðum og börum í Reykjavík er svakalegt. Við hefðum einfaldlega farið á hausinn ef við hefðum ekki haldið aftur af okkur. Það er svekkjandi að hafa þurft að gera það,“ segir Sarah.

Mark, sem er fertugur, er samskiptastjóri hjá lestarfyrirtækinu Network Rail. Sarah er 33 ára og er dagskrárgerðarmaður á útvarpsstöðinni Global Radio í heimabæ þeirra Manchester.

„Við eigum vini sem eru að koma til Íslands í næstu viku og þekkjum fleiri sem velta því fyrir sér. Við verðum að vara þau við því sem er hér er í gangi. Þetta er eins og að lenda í höndunum á fjárkúgurum,“ segja Bellew-hjónin sem komu til landsins á miðvikudag og fóru aftur heim í dag - nánast tómhent.

„Okkur langaði að kaupa minjagripi til að færa börnunum. Við sáum Geysis tröll sem kostaði 150 pund. Það er svona tífalt meira en sambærilegur hlutur kostar í London,“ segir Mark. Sama gildi um tuskudýr, lopavörur og hvaðeina sem þau hafa rekist á. „Ætli við endum ekki á að reyna að finna minjagripasegul á ísskápinn heima. Þannig seglar kosta um tvö pund annars staðar. Ef við erum heppin sleppum við kannski með sex pund hér.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×