Fótbolti

Síðasti dagurinn til að bjóða sig fram sem sjálfboðaliða á HM í fótbolta 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er oft gaman hjá sjálfboðaliðunum á HM.
Það er oft gaman hjá sjálfboðaliðunum á HM. Vísir/EPA
Íslenska landsliðið er í miðri undankeppni HM í fótbolta og það kemur ekki í ljós fyrr en næsta haust hvort íslensku strákarnir verða með í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi. Aðrir Íslendingar eiga þó möguleika á því að koma að HM eftir eitt og hálft ár.

Rússar eru að leita að þúsundum sjálfboðaliða til að aðstoða við framkvæmd keppninnar. Sjálfboðaliðarnir koma bæði frá Rússlandi sem og öðrum löndum heimsins. Tíminn er hinsvegar að renna út því ætli fólk að vera með þá þarf það að skrá sig í síðasta lagi í dag, föstudaginn 30. desember.

Til að vera sjálfboðaliði þá þarf fólk að fara í gegnum ákveðið ferli en Rússar og FIFA eru að leita að aðstoðarfólki í öllum ellefu borgunum sem keppt verður í á HM 2018. Knattspyrnusambandið í hverju landi mun aðstoða viðkomandi en ferlið fer að mestu fram á netinu.

FIFA leitar bæði að sjálfboðaliðum fyrir Álfukeppnina næsta sumar og sem og heimsmeistaramótið sjálft. 5000 sjálfboðaliðar verða á Álfukeppninni en fimmtán þúsund á heimsmeistaramótinu.

Verið er að leita að sjálfboðaliðum í allskyns störf. Viðkomandi þarf að vera orðinn átján ára gamall 10. maí 2018, kunna ensku og geta unnið vel með öðrum. Það telst fólki til tekna að hafa unnið sem sjálfboðaliði áður.

Sjálfboðaliðarnir munu hjálpa til við opnunar- og setningarhátíðina, þjónusta fjölmiðla, aðstoða við samgöngur, vera með tungumálaþjónustu, hjálpa til við lyfjapróf og bjóða fram þjónustu sína við áhorfendur.

Það er hægt að sækja um hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×