Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, gat verið ánægður með sína menn í kvöld.
Danir unnu þá afar sannfærandi tíu marka sigur á Egyptum, 36-26, í Bygma-æfingamótinu.
Danska landsliðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu en mætir íslenska landsliðinu í úrslitaleik mótsins á sunnudaginn.
Danska handboltalandsliðið er svo sannarlega búið að hrista af sér slyðruorðið síðan í fyrri hálfleik á móti Ungverjum í gær. Ungverjar voru þá fjórum mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks en danska liðið vaknaði þá af værum blundi og vann lokakafla leiksins með sjö mörkum.
Staðan var 2-1 fyrir Egypta í byrjun leiks en þá komu tvö dönsk mörk í röð og Danir komust í framhaldinu í 7-4 og 10-6. Danir voru síðan fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13.
Danir voru síðan með örugga forystu allan seinni hálfleikinn og unnu á endanum með tíu marka mun.
Ísland og Danmörk mætast á sunnudagskvöldið en það verður úrslitaleikur Bygma-mótsins. Dönum nægir jafntefli.
Ungverjar gætu reyndar blandað sér í baráttuna með sigri á Egyptum fyrr um daginn. Íslensku strákarnir vita hvað þeir þurfa að gera fyrir leikinn.
Lærisveinar Guðmundar rassskelltu Egyptana í kvöld | Úrslitaleikur á móti Íslandi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið







Gæti fengið átta milljarða króna
Formúla 1


Nýir erlendir leikmenn halda áfram að streyma í botnliðið
Íslenski boltinn
