Lögregla telur að slökkt hafi verið á síma Birnu Brjánsdóttur af mannavöldum. Hann hafi ekki orðið batteríslaus. Sími Birnu tengdist símamastrinu á gömlu slökkvistöðinni í Hafnarfirði klukkan 05:50 aðfaranótt laugardags. Síðan hefur ekki verið kveikt á símanum.
Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Fyrir svörum voru Ásgeir Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sem stýrir leitinni að Birnu, og Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins.
Lögreglan telur tvo möguleika líklegasta í stöðunni miðað við þær upplýsingar sem sjá má úr eftirlitsmyndavélum á sjötta tímanum um nóttina. Annaðhvort hafi Birna farið af Laugavegi niður Vatnsstíg eða farið upp í rauðan Kia Rio bíl sem ekið var niður Laugaveginn á svipuðum tíma.
Foreldrar Birnu hafa aðstoðað lögreglu sem hefur meðal annars skoðað Facebook-aðgang hennar. Hins vegar hefur lögregla ekki fengið aðgang að öðrum samfélagsmiðlum en unnið er að því að fá aðgang að þeim.
Birna er búsett hjá föður sínum í Bakkahverfinu í Breiðholti en virtist ekki reyna að ná athygli leigubílstjóra á göngu sinni frá Húrra við Tryggvagötu, niður Austurstræti og upp Bankastræti. Það bendi til þess að Birna hafi ekki verið í leit að leigubíl. Sömuleiðis telur fjölskylda hennar ólíklegt að hún hafi ætlað að ganga alla leiðina heim í Breiðholtið.
Fjölskylda Birnu segir hana ekki neyta annarra vímuefna en áfengis. Lögregla segir að af eftirlitsmyndavélum að dæma hafi Birna bara verið að skemmta sér á Húrra og ekkert sem gerist þar sem bendi til þess að eitthvað hafi amað að.
Á blaðamannafundinum kom fram að Birna var einhleyp en hún og kærasti hennar voru nýhætt saman.
