Íslenska handboltalandsliðið hefur aðeins náð í eitt stig af sex mögulegum í fyrstu þremur leikjum sínum á HM í handbolta í Frakklandi en það er ekki mikið hægt að kvarta yfir hinum þremur íslensku þjálfurum á heimsmeistaramótinu.
Kristján Andrésson, Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson hafa stýrt sínum landsliðum til sigurs í báðum leikjum sínum á HM til þessa.
Sænska landsliðið hefur unnið tvo risasigra í fyrstu tveimur leikjum sínum á stórmóti undir stjórn Kristján Andréssonar. Svíar unnu 17 marka sigur á Barein og 18 marka sigur á Argentínu en sænska liðið hefur aðeins fengið á sig 16,5 mörk að meðaltali í leik.
Svíar eru einnig með bestu skotnýtinguna en liðið hefur nýtt 72 prósent skota sinna í þessum tveimur leikjum. Svíar ásamt Þjóðverjum eru líka það lið sem hefur tapað fæstum boltum eða aðeins 13 í þessum tveimur leikjum.
Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, fylgdu eftir fjögurra marka sigri á Ungverjalandi með því að vinna 21 marks sigur á Síle í gær. Þjóðverjar hvíla í dag en mæta Sádí Arabíu á morgun sem ætti að vera annar auðveldur sigur.
Danska landsliðið hefur ekki verið í miklum vandræðum í sínum fyrstu tveimur leikjum, vann fyrst ellefu marka sigur á Argentínu og svo sjö marka sigur á Egyptalandi. Guðmundur hefur dreift álaginu á sína menn og sjö leikmenn hafa skorað á bilinu fjögur til átta mörk í leikjunum tveimur.
Samanlagt hafa þessir þrír þjálfarar unnið leikina sex með samtals 78 marka mun eða þrettán mörkum að meðaltali í leik.
Það verður stór stund í kvöld þegar þeir Guðmundur og Kristján mætast með sín lið í lykilleik í D-riðlinum. Það er ljóst að báðir geta ekki verið með hundrað prósent árangur eftir þann leik. Leikurinn hefst klukkan 19.45 í kvöld.
Leikir sænska landsliðsins undir stjórn Kristján Andréssonar á HM 2017:
17 marka sigur á Barein (33-16)
18 marka sigur á Argentínu (35-17)
4 stig af 4 mögulegum og 35 mörk í plús
Leikir þýska landsliðsins undir stjórn Dags Sigurðssonar á HM 2017:
4 marka sigur á Ungverjalandi (27-23)
21 marks sigur á Síle (35-14)
4 stig af 4 mögulegum og 25 mörk í plús
Leikir danska landsliðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar á HM 2017:
11 marka sigur á Argentínu (33-22)
7 marka sigur á Egyptalandi (35-28)
4 stig af 4 mögulegum og 18 mörk í plús
Guðmundur, Dagur og Kristján á HM: Hundrað prósent árangur og 78 mörk í plús

Tengdar fréttir

Heiðraði minningu föður síns með 13 mörkum
Uwe Gensheimer skoraði 13 mörk þegar Þjóðverjar unnu Ungverja, 27-23, í C-riðli á HM í handbolta í dag.

Öruggt hjá lærisveinum Dags og Kristjáns
Þjóðverjar og Svíar unnu örruga sigra í leikjum sínum á HM í Frakklandi í dag.

Öruggur sigur í fyrsta stórmótsleik Kristjáns
Svíar áttu ekki í neinum vandræðum með leggja Barein að velli, 33-16, í fyrsta leik sínum á HM í Frakklandi í dag.

Umdeild olnbogahlíf: Mótherjar Dana ráða því hvort René Toft megi spila
René Toft Hansen, línumaðurinn öflugi, fékk ekki leyfi til að spila með danska handboltalandsliðinu gegn því argentínska á HM í Frakklandi í kvöld.

Ólympíumeistararnir fara vel af stað | Króatar í basli
Danir fara vel af stað á HM í Frakklandi en í kvöld unnu þeir öruggan 11 marka sigur, 33-22, á Argentínu.