Lítið þokast í samningaviðræðum sjómanna og útvegsmanna en samninganefndir þeirra komu saman hjá ríkissáttasemjara klukkan 11 í morgun og sitja enn á fundi.
Sjómenn hafa verið í verkfalli frá því um miðjan desember eftir að hafa fellt kjarasamninga í tvígang. Fundað hefur verið í kjaradeilunni alla þessa viku en enn er langt í land, að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur segir í samtali við Vísi að ólíklegt sé að samkomulag náist í dag. „Ég er ekki ýkja bjartsýnn á að það náist einhver niðurstaða á heildarlausn þessa samnings, held að það sé alveg útilokað mál að það gerist í dag,“ segir hann.

