Samninganefndir sjómanna og útvegsmanna ætla að koma saman til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag. Deiluaðilar hittust síðast í gær en heimildir fréttastofu herma að viðræðurnar séu farnar að þokast í samkomulagsátt, nú eftir tæplega mánaðar langt verkfall sjómanna.
Fundur samninganefndanna í gær stóð í um tvær klukkustundir. Haft var eftir Konráði Alfreðssyni, varaformanni Sjómannasambands Íslands, á Vísi í gær að fundurinn hefði verið góður og hreinskiptinn og því hafi verið ákveðið að boða til nýs fundar.
Um ellefu hundruð manns hefur verið sagt upp í fiskvinnslum landsins í verkfallinu, sem staðið hefur síðan um miðjan desember, og eru flest störfin á Norðurlandi eystra.
Allt að því jafnmörgum starfsmönnum hefur verið sagt upp á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum samanlagt og á Norðurlandi eystra. Á Vestfjörðum hafa á annað hundrað manns misst vinnuna.
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að um hálfum milljarði verði varið úr atvinnuleysistryggingasjóði í janúarmánuði einum vegna verkfalls sjómanna.

