Erlent

Borgarstjóri Berlínar biðlar til Trump: „Ekki reisa þennan múr“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það sem eftir er af Berlínarmúrnum
Það sem eftir er af Berlínarmúrnum Vísir/EPA
Borgarstjóri Berlínar í Þýskalandi hefur biðlað til Donald Trump Bandaríkjaforseta að hætta við að reisa fyrirhugaðan múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. BBC greinir frá.

„Við Berlínarbúar þekkjum það hversu miklar þjáningar urðu til vegna skiptingar heillar álfu,“ sagði Michael Mueller, borgarstjóri Berlínar og vísað þar til járntjaldsins svokallaða sem skipti Evrópu í austur og vestur á tímum Kalda stríðsins.

Þá vísaði Mueller einnig til Berlínarmúrsins sem skipti Berlín í austur og vestur á árunum 1961 til 1989. Sagði hann að miðað við reynslu Berlínarborgar gæti borgin ekki setið aðgerðarlaus hjá.

„Við getum ekki látið traðka á sögulegri reynslu okkar af sama fólki og við eigum frelsi okkar svo mikið að þakka, Bandaríkjamönnum,“ sagði Mueller.

„Ég biðla til forsetans að feta ekki þessa slóð einangrunar,“ sagði Mueller. „Herra forseti, ekki reisa þennan múr.“

Múrinn var eitt helsta kosningaloforð Donald Trump og nýverið skrifaði hann undir tilskipun þar sem skipað var fyrir um að múrinn skyldi reistur.


Tengdar fréttir

Trump skipar fyrir um nýjan landamæravegg

Donald Trump boðar aðgerðir í innflytjendamálum hið snarasta. Reisa á vegg og innflutningi fólks frá sjö múslimaríkjum verða settar skorður. Samstarfsfólk segir stefnu Trumps skýra hátt gengi Dow Jones-vísitölunnar undanfarið.

Múrinn hans Donald Trump: Um hvað snýst málið?

Bandaríkjaforseti skrifaði í vikunni undir tilskipun um að framkvæmdir skuli hefjast við byggingu ókleifs múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó eins fljótt og auðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×