Bótakrafan, sem er upp á um 600 milljónir króna, lýtur meðal annars að kostnaði verktakans vegna stöðvunar framkvæmda í nokkra mánuði og ýmissa framkvæmda sem tengjast tveimur hafnargörðum sem komu í ljós á lóðinni.
Annar garðurinn er frá nítjándu öld og er því aldursfriðaður en hinn er talinn vera frá 1928 og var friðlýstur 2015 eftir að þáverandi forsætisráðherra hafði afskipti af málinu.
Kristín sagði við Fréttablaðið í október síðastliðnum að Minjastofnun þyrfti ekki að borga kröfu lóðarhafans og að krafan væri ekki lengur vandamál. Krafan er þó enn á borðinu.

Bjarki Þór Sveinsson, lögmaður lóðarhafans ÞG verktaka sem keyptu verkefnið í fyrravor, segist ósammála lagatúlkun Minjastofnunar. Ósanngjarnt sé að sá sem lendi í því að grafa niður á fornminjar á lóð sinni megi ekki nýta hana og þurfi sjálfur að kosta allir rannsóknir.
„Og ef lögin eru þannig þá standast þau hvorki eignarréttarákvæði né jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar,“ segir Bjarki sem hyggst leggja til að óháðir matsmenn meti tjónið.

„Það verður varðveitt sýnishorn eða bútur af garðinum, hann er ekki varðveittur í heild sinni ofan í bílageymslunni,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun, um tillögur frá lóðarhafanum sem hann kveður stofnunina taka jákvætt í. Upphaflega hafi verið rætt um að varðveita jafnvel yngri garðinn í heild sinni.
„Það hefði kostað að ekki hefði verið hægt að nýta kjallarann sem bílageymslu. Eins og þetta hefur þróast hefur markmiðið verið að lágmarka tjón sem og óhagræði en þó þannig að einhver hluti þessara minja verði sýnilegur hluti af þessu nýja umhverfi þótt í breyttri mynd sé. Það fannst okkur vera sanngjörn niðurstaða,“ segir Pétur.
Þorvaldur H. Gissurarson hjá ÞG verktökum segir að þannig hafi verið ráðið fram úr framhaldi málsins með samkomulagi. „En það er áfallinn kostnaður til staðar, fjármunir sem búið er að eyða í verkefnið nú þegar, og einhver þarf að bera þann kostnað.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu