Þorsteinn G. Gunnarsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir þetta umfangsmestu leit sem Landsbjörg hefur farið í. Alls 500 manns munu taka þátt í leitinni. Lögð verður áhersla á svæði frá Borgarnesi að Selfossi og allan Reykjanesskagann. Áherslan er fyrst og fremst lögð á vegi og vegaslóða á þessu svæði.
„Svo eru einstök svæði sem við verðum að leita á, það eru á þau svæði sem vísbendingar hafa borist lögreglu en það er á Keili og á þeim slóðum en áherslan er í raun á allt þetta umfangsmikla svæði,“ segir Þorsteinn.

Aðgerðarstjórnendur af Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum hafa starfað með landsstjórninni að skipulagningu leitarinnar. Mikil skipulagning liggur að baki leitinni og hefur hún staðið yfir í tvo sólarhringa. Leitarsvæðið hefur verið teiknað upp og skoðað gaumgæfilega að sögn Þorsteins.
„Hver hópur fær úthlutað ákveðnu svæði sem getur verið vegaslóði eða vegaspotti og þá er leitað kannski hundrað metra út frá miðlínu vegar, beggja vegna,“ segir Þorsteinn og bendir á að iðulega séu ákvarðanir teknar fram í tímann. Búist er við að leitað verði á morgun ef ekkert finnst í dag.
Gríðarlegur stuðningur
Mikil samkennd hefur verið í samfélaginu síðan Birna hvarf og fjöldi fólks hefur boðið fram aðstoð sína. Aðstandendur Birnu hafa hvatt fólk til að leggja Björgunarsveitinni og Lögreglunni lið í formi fjárstyrks. Aðspurður segir Þorsteinn að þeir hafi svo sannarlega fundið fyrir samkenndinni og fjársöfnuninni. Hann nefnir einnig að fjöldi fyrirtækja hafi lagt þeim lið. Fyrirtæki hafi meðal annars gefið byrgðir af mat ásamt öðru sem nýtist björgunarsveitarfólkinu við störf sín.
Almenningur hefur verið mikill þátttakandi í leitinni að Birnu og hafa margir lagt leitinni lið með því að veita vísbendingar og aðstoða við leitina. Þorsteinn biðlar þó til almennings að leyfa þeim að sinna leitinni sjálfri þar sem björgunarsveitarfólkið sé sérhæft og kunni vel til verka í svona málum. Hann segir þó stuðning almennings hafa skipt miklu máli en nú sé best að leyfa björgunarsveitarfólkinu að sjá um framhaldið. Hann þakkar alla aðstoð almennings og segir að almenningur megi vissulega hafa augun opin fyrir vísbendingum.


