Robert Lewandowski var hetja Bayern München sem marði sigur á Freiburg, 1-2, í fyrsta leiknum eftir jólafrí í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Lewandowski skoraði sigurmarkið þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma.
Þetta var sjötti sigur Bayern í röð en liðið er nú með sex stiga forskot á toppnum. Red Bull Leipzig getur minnkað forystu Bayern aftur niður í þrjú stig með sigri á Frankfurt á morgun.
Freiburg náði forystunni í leiknum í kvöld strax á 4. mínútu er Janik Haberer kom boltanum í markið.
Lewandowski jafnaði metin á 35. mínútu og tryggði svo þýsku meisturunum sigurinn undir blálokin eins og áður sagði. Pólski framherjinn er nú kominn með 14 mörk í þýsku deildinni í vetur.
