Lögreglan hefur kallað út fjóra leitarhópa frá björgunarsveitunum til að fylgja eftir vísbendingum um mannaferðir á Strandarheiði síðastliðinn laugardagsmorgun. Ásamt björgunarsveitarfólki fær lögregla einnig aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar.
„Við erum að kalla út fjóra hópa og síðan er þyrla landhelgisgæslunnar að hjálpa okkur aðeins. Þetta er þarna á Strandarheiði á svipuðum stað,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.
„Það eru búnar að koma í gegnum þessa daga nokkrar ábendingar um mannaferðir á þessu svæði á laugardagsmorgun og við erum að fylgja þessu eftir.“
Ekki þannig að það komi eitthvað nýtt úr yfirheyrslum?
„Nei. Þetta er bara á nánast sama stað og við vorum í gær.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent beiðni á allar svæðisstjórnir björgunarsveita á landinu um að leggja til mannskap í umfangsmikla leit að Birnu sem gert er ráð fyrir að hefjist á morgun. Ásgeir segir að um sé að ræða eina stærstu leit sem fram hefur farið hér á landi í áraraðir.

